Menning

Spilastokk hent á loft og dregið um röð atriðanna

Hannes Óli, Vignir og Melkorka eru aðstandendur sýningarinnar 52 sem er frumsýnd er annað kvöld.
Hannes Óli, Vignir og Melkorka eru aðstandendur sýningarinnar 52 sem er frumsýnd er annað kvöld.
Ástarsamband karls og konu er umfjöllunarefni leikritsins 52 sem verður frumsýnt annað kvöld. Uppbygging verksins er óvenjuleg en tilviljun ræður í hvaða röð senur verksins eru fluttar.

"Leikritið 52 er samansett úr 52 senum sem spanna allt samband söguhetjanna tveggja, frá því að þau kynnast og þar til að tvö ár eru liðin frá skilnaði þeirra," segir Hannes Óli Ágústsson, annar tveggja leikara verksins 52 sem frumsýnt verður í Gym & Tonic salnum á Kexi annað kvöld.

Auk Hannesar Óla standa að verkinu þau Melkora Óskarsdóttir sem fer með kvenhlutverk verksins og þýðir það að auki og Vignir Rafn Valþórsson sem leikstýrir verkinu.

Uppbygging verksins er ekki hefðbundin og hún veldur því að engar tvær sýningar verða eins. "Í upphafi leikritsins köstum við spilastokk á loft, á hvert spil er ritað nafn atriðis úr verkinu og atriðin eru leikin í þeirri röð sem við drögum spilin upp af gólfinu.

Það er þannig tilviljunum háð í hvaða röð þau eru leikin. Áhorfendur fylgjast þannig með sambandi söguhetjanna í brotakenndri röð, sem er mjög áhugavert og rímar við minningar fólks, þær eru ekki endilega í tímaröð með skipulögðu upphafi og endi," segir Hannes Óli sem segir krefjandi og þroskandi að leika í verkinu.

''Og verkið er mjög skemmtilegt. Áhorfendur tengja örugglega vel við senurnar í verkinu sem spanna allt frá vandræðalegum fyrstu kynnum, rifrildum pars um ekki neitt, símtöl og eftirmála sambandsins."

Hannes Óli og Melkorka eru gamlir vinir og höfðu lengi leitað að verki til að setja upp saman. "Mel

korka frétti svo af þessu leikriti sem er kanadískt verðlaunaverk eftir T. J. Dawe og Ritu Bozi. Við settum okkur í samband við höfundana sem tóku okkur vel," segir Hannes Óli. "Við fengum svo Vigni Rafn til liðs við okkur en hann leikstýrir verkinu, við erum gamlir vinir og höfum áður unnið saman."

Tvær sýningar eru áætlaðar á 52. Sú fyrri er á morgun klukkan sex í Gym & Tonic-salnum á Kexi sem fyrr sagði og hin síðari er á föstudag á sama tíma.

sigridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×