Innlent

Vildu fá lán gegn veði í norskum eignum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lárus Welding mætti fyrir dóiminn í dag.
Lárus Welding mætti fyrir dóiminn í dag. mynd/ gva.
Stjórnendur Glitnis vildu fá lán frá Seðlabanka Íslands gegn veði í eignum sem Glitnir átti í Noregi. Þetta var ástæða þess að Glitnismenn leituðu til Seðlabankans í lok september 2008, áður en ákvörðun var tekin um að taka yfir 75% hlut í bankanum. Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, greindi frá þessu fyrir Landsdómi í dag.

Lárus sagði fyrir dómnum að um vorið 2008 hefði verið ráðist í umfangsmikla aðgerðaráætlun sem hefði falið í sér sölu eigna og kostnaðaraðhald. Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis, greindi jafnframt frá þessum aðgerðum í vitnisburði sínum fyrir helgi. Sagði Þorsteinn að meðal annars hefði 200 manns verið sagt upp störfum.

Lárus Welding sagði fyrir dómnum í dag að um sumarið hefðu menn verið orðnir fremur bjartsýnir á reksturinn. Hann sagði einnig að til hefði staðið að selja Nordea bankanum eignir Glitnis í Noregi en málin hefðu tekið nýja stefnu eftir fall Lehman Brothers 15. september.

Skýrslutökum yfir Lárusi Welding er lokið en samkvæmt dagskrá er gert ráð fyrir að Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason bankastjórar Landsbankans beri vitni eftir hádegi. Einnig er gert ráð fyrir að Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, beri vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×