Menning

Í leikhúsmaraþoni í sumarfríinu

Leikaraparið Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Einar Aðalsteinsson eru á heimavelli á stærstu leikhúshátíð í heimi, Festival Fringe í Edinborg.
Leikaraparið Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Einar Aðalsteinsson eru á heimavelli á stærstu leikhúshátíð í heimi, Festival Fringe í Edinborg.
„Þetta er dásamlegt. Við erum í leikhúsum frá morgni til kvölds og þetta er frábær innblástur sem við eigum eftir að lifa á í vetur,“ segir leikkonan Anna Gunndís Guðmundsdóttir, sem er stödd á leiklistarhátíðinni Festival Fringe í Edinborg ásamt kærasta sínum, leikaranum Einari Aðalsteinssyni.

Festival Fringe er ein af stærstu leikhúshátíðum í heimi og því eins og paradís á jörðu fyrir leikaraparið. Sólarströndinni var því skipt út fyrir maraþon-leikhúsferðir í tíu daga sumarfríi í Edinborg. „Við förum á tvær til þrjár sýningar á dag. Það má segja að borgin sé undirlögð,“ segir Anna Gunndís og heldur áfram „Sumar sýningar eru betri en aðrar. Uppáhaldsýningin okkar hingað til er brúðuleikhús en á einni sýningunni gengum við út eftir tíu mínutur.“

Anna Gunndís leikur aðalhlutverkið í nýjustu mynd Reynis Lyngdal, Frost, sem frumsýnd verður 7. september næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem leikkonan unga birtist á hvíta tjaldinu en hún kveðst ekki vera orðin stressuð enn. „Ég er meira að spá í hverju ég á að vera í á frumsýningunni, verð að fara að finna mér fínan kjól,“ segir Anna Gunndís hlæjandi en viðurkennir þó að það verði mjög sérstakt að sjá sig á hvíta tjaldinu. „Ég hef fengið að sjá nokkra búta úr myndinni og er mjög spennt fyrir viðtökunum.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.