Fótbolti

Celtic vann dramatískan 3-2 sigur í Moskvu - fyrsti útisigur félagsins frá 1986

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georgios Samaras skoraði sigurmark Celtic í Moskvu.
Georgios Samaras skoraði sigurmark Celtic í Moskvu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Skoska liðið Celtic tók öll þrjú stigin með sér frá í Moskvu í dag þegar liðið vann 3-2 sigur á Spartak Moskvu í fyrsta leik dagsins í Meistaradeildinni. Celtic komst í 1-0 og lenti síðan undir en tókst að tryggja sér sigur með því að skora tvö mörk manni fleiri.

Þetta var langþráður sigur hjá skoska liðinu því Celtic hafði ekki unnið útileik í Evrópukeppni Meistaraliða í 26 ár eða síðan að liðið vann Shamrock Rovers 1986.

Gary Hooper kom Celtic í 1-0 á 13. mínútu en Emmanuel Emenike jafnaði fjórum mínútum fyrir hálfleik. Emenike var síðan aftur á ferðinni á 48. mínútu þegar hann kom rússneska liðinu í 2-1. Rússarnir voru með mikla yfirburði á þessum tímapunkti og allt leit út fyrir öruggan sigur Spartak.

Juan Insaurralde, varnarmaður Spartak Moskvu fékk hinsvegar rauða spjaldið á 63. mínútu og mínútu síðar urðu heimamenn fyrir því að skora sjálfsmark. Varamaðurinn James Forrest átti stóran þátt í markinu en hann hafði komið inn á mínútu áður.

Grikkinn Georgios Samaras skoraði síðan sigurmark Celtic á lokamínútu leiksins en hann skallaði þá inn fyrirgjöf Emilio Izaguirre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×