Fótbolti

Messi lagði upp bæði mörk Barca | Puyol meiddist illa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Barcelona hélt áfram sigurgöngu sinni í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þegar liðið sótti sigur til Lissabon í kvöld. Barcelona vann þá 2-0 sigur á heimamönnum í Benfica þar sem Lionel Messi lagði upp bæði mörkin.

Barcelona varð fyrir áfalli í seinni hálfleik þegar fyrirliðinn Carles Puyol féll mjög illa og var borinn af velli líklega handleggsbrotinn.

Barcelona var ekki lengi að komast yfir þegar Alexis Sánchez skoraði á 6. mínútu eftir sendingu frá Lionel Messi. Benfica átti nokkrar góðar sóknir í kjölfarið og fékk dauðafæri á 11. mínútu þegar Victor Valdés varði vel frá Lima.

Alexis Sánchez og Lionel Messi fengu báðir frábær færi til að bæta við mörkum í fyrri hálfleiknum en staðan var enn 1-0 í hálfleik.

Cesc Fabregas skoraði loksins á 56. mínútu og kom markið eftir frábæran einleik og stoðsendingu frá Lionel Messi. Fabregas fékk boltann einn á móti markverði og skoraði örugglega.

Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, meiddist þrettán mínútum fyrir leikslok og það var ljótt að sjá. Hann lenti illa á hendinni og virtist annaðhvort handleggsbrotna eða fara illa úr lið. Barca verður ekki bara án Puyol í næsta Evrópuleik því Sergi Busquets fékk rautt spjald á 88. mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×