Fótbolti

Rooney lagði upp tvö mörk fyrir Van Persie í sigri á Cluj

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Robin van Persie og Wayne Rooney voru í fyrsta sinn saman í byrjunarliði Manchester United í kvöld þegar liðið vann 2-1 sigur á CFR Cluj í Rúmeníu. Rúmenarnir komust yfir í leiknum en van Persie skoraði tvisvar eftir sendingar frá Rooney og tryggði United góðan útisigur.

Robin van Persie hefur þar með skorað 7 mörk fyrir Manchester United á tímabilinu og það er óhætt að segja að hann hafi smollið vel inn í leik liðsins. Wayne Rooney datt aftur á miðjuna í þessum leik og stóð sig vel.

Manchester United hefur fullt hús eftir tvo fyrstu leiki riðlakeppninnar og það bendir ekki til annars en að United-liðið sé á leiðinni upp úr þessum riðli þrátt fyrir að leikur liðsins hafi ekki verið alltof sannfærandi. Sigur liðsins var aldrei í hættu í kvöld en þeir gáfu heimamönnum þó nokkur tækifæri sem er áhyggjuefni fyrir Sir Alex Ferguson.

Pantelis Kapetanos kom Cluj í 1-0 á 14. mínútu úr fyrstu alvöru sókn rúmenska liðsins. Kapetanos skoraði með hnitmiðaðu skoti úr teignum eftir sendingu frá Modou Sougou.

Robin van Persie jafnaði metin á 29. mínútu þegar hann skoraði með öxlinni eftir aukaspyrnu Wayne Rooney. Van Persie ætlaði að skalla boltann en hann fór af öxlinni hans og sveif yfir markvörð Cluj.

Robin van Persie kom United í 2-1 eftir aðeins fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik. Hann fékk þá flotta sendingu frá Wayne Rooney og afgreiddi boltann laglega framhjá markverðinum.

Liðsmenn Manchester United héldu síðan út í lokin þegar heimamenn gerðust ágengir en Cluj tókst ekki að skora og varð að sætta sig við tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×