Verslun Kraums er staðsett í elsta húsi Reykjavíkur og segir Halla hugmyndina hafa kviknað út frá því. „Okkur langaði að leita í þjóðlegan fróðleik og koma fram með nýja hönnun sem væri þó tengd þjóðinni á einhvern hátt." Sú hugmynd að vinna með nytjahluti kom fljótt upp og hugmyndin um endurhönnun pönnukökupönnunnar var fædd. Hún segir að henni hafi lengi þótt hönnunin á handfanginu ekki nógu góð. „Sérstaklega man ég eftir því að sköftin voru oft brotin og fólk var að vefja tuskum eða einangrunarlímbandi um skaftbrotið."
Áhersla lögð á við í skafti
Framleiðandi pönnunnar tók vel í hugmynd Kraums og fljótlega hófst undirbúningurinn. Svo skemmtilega vildi til að hópurinn var allur staddur á bókamessunni í Frankfurt og því má segja að vinnan hafi hafist á bökkum árinnar Maine þar í borg. Hópurinn hittist aftur eftir jólin þar sem hönnuðirnir kynntu hugmyndir sínar.
Halla segir að áherslan í upphafi hafa snúist um að breyta hlutföllum pönnunnar þannig að skaftið yrði úr viði og fengi meira vægi á móti málminum. Hún segir markmiðið alltaf hafa verið að búa til sérstaka vöru sem væri bara til sölu í verslun Kraums.
Salan framar vonum

Góðar viðtökur pönnunnar hefur verið hvatning fyrir frekari hönnun á þjóðlegum nytjahlutum. Halla segir að fljótlega hafi hugmyndir kviknað um breytingar á skyldum hlutum.
„Ég geri ráð fyrir því að tvær til þrjár nýjar vörur verði settar á markað síðar á árinu. Síðan verður ný vara sett á markað í tengslum við Hönnunarmars á næsta ári. En hver hún er, er leyndarmál á þessu stigi."