Handbolti

Guðmundur: Mikið álag að vera í tveimur störfum

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Vilhelm
Guðmundur Guðmundsson tók við landsliðinu þegar enginn vildi taka við því af Alfreð Gíslasyni eftir EM árið 2008. Uppgangur landsliðsins hefur verið með ólíkindum alla tíð síðan þá og liðið unnið tvenn verðlaun undir stjórn Guðmundar.

Alfreð hætti með liðið af því að álagið við að vera með félagslið og landslið var honum ofviða. Guðmundur er í nákvæmlega sömu stöðu því hann þjálfar eitt af stórliðum Þýskalands, Rhein-Neckar Löwen. Samningur Guðmundar við HSÍ rennur út eftir Ólympíuleikana næsta sumar. Mun Guðmundur halda áfram með liðið eftir það eða hætta?

„Ég er ekkert farinn að hugsa um það. Ég er að einbeita mér að því að hjálpa til eins og ég get og vinna mína vinnu. Ég gef alla þá orku sem ég á fyrir landsliðið. Því verður þó ekki neitað þetta er gríðarlegt álag og orkan er ekki endalaus. Ég geri mér grein fyrir því. Ég skil vel ákvörðun Alfreðs á sínum tíma," sagði Guðmundur, en hann nýtur þess þó að vera landsliðsþjálfari.

„Ég hef haft gríðarlega gaman af því að starfa með þessum strákum. Okkur hefur auðvitað gengið vel. Á meðan ég sé liðið vera á réttri leið og að þróast þá hef ég gaman af því að starfa sem landsliðsþjálfari. Hversu lengi það gengur er erfitt að segja."


Tengdar fréttir

Það þarf að fjárfesta í landsliðinu

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson var nokkuð ánægður með leik íslenska landsliðsins á EM í Serbíu. Henry Birgir Gunnarsson settist niður með Guðmundi í Novi Sad og ræddi við hann um álagið sem fylgir því að þjálfa eitt af stóru liðunum í handboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×