Fótbolti

Ekki gaman að koma inn í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir stóð sig vel í framlínunni. mynd/gettyimages
Hólmfríður Magnúsdóttir stóð sig vel í framlínunni. mynd/gettyimages
Íslenska kvennalandsliðið tapaði sínum öðrum leik í röð í Algarve-bikarnum í gær þegar liðið lá 1-4 á móti sterku sænsku liði. Slæmur fyrri hálfleikur varð íslenska liðinu að falli en sænska liðið skoraði fjögur mörk á fyrstu 38 mínútum leiksins þar af tvö þeirra á fyrstu tólf mínútunum. Dóra María Lárusdóttir minnkaði muninn í 2-1 með marki úr víti sem Hólmfríður Magnúsdóttir gerði vel í að fá.

„Við vorum í basli í öftustu vörn og í markvörslu í þessum leik og hefðum getað gert betur þar. Það var margt fínt öðru hverju í leiknum og við náðum upp fínu spili. Þær nýttu sín færi vel en þær fengu samt alltof mörg færi í leiknum. Við eigum ekki að gefa svona mörg færi á okkur," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari eftir leikinn.

„Það er fínt fyrir okkur að fá svona leik á þessum tímapunkti þar sem reynir verulega á vörnina okkar, sérstaklega þar sem við erum að reyna að skoða leikmenn í þessum stöðum," sagði Sigurður.

„Það var ekki gaman að koma inn í hálfleik og vera 4-1 undir en mér fannst samt leikmenn vera að reyna að gera vel og að leggja sig fram. Þetta var ekki alslæmt og við erum meira að horfa á frammistöðu leikmanna heldur en úrslit leikjanna í þessu móti," sagði Sigurður Ragnar en næsti leikur er við Kína á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×