Fótbolti

Aron: Fattaði ekki að mörkin komu með svo stuttu millibili

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Vakti mikla athygli í Danmörku í gær.
Aron Vakti mikla athygli í Danmörku í gær.
Aron Jóhannsson skráði nafn sitt í sögubækurnar í gær þegar hann skoraði öll fjögur mörk sinna manna í AGF í 4-1 útisigri á Horsens í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Fyrstu þrjú mörkin skoraði hann á þremur mínútum og 50 sekúndum og bætti hann þar með fimmtán ára gamalt met Ebbe Sand sem hafði skorað þrennu á fjórum mínútum og tveimur sekúndum í úrvalsdeildarleik árið 1997.

En Aron var þar með ekki hættur. Hann bætti fjórða markinu við úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Það kom sextán mínútum eftir fyrsta markið og er það einnig met í sögu dönsku deildarinnar.

„Þetta var ekki amalegt," sagði Aron í léttum dúr við Fréttablaðið eftir leikinn í gær. „Ef ég á reyndar að segja alveg satt þá fattaði ég ekki að þessi þrjú mörk komu með svona skömmu millibili. Ég hélt að þetta hefði komið á 10-15 mínútna kafla. Ég fékk svo að vita þetta eftir leikinn og var ég auðvitað glaður við að heyra það," bætti hann við.

Hann var svo tekinn af velli á 68. mínútu og neitar Aron því ekki að það hefði verið gaman að fá að klára leikinn. „Sigurinn var svo gott sem tryggður og þjálfarinn vildi greinilega hvíla leikmenn," sagði Aron, sem hefur verið í byrjunarliði AGF í öllum leikjum tímabilsins. „Ég hef fundið fyrir miklu trausti frá þjálfaranum sem er mjög gott fyrir mig."

Þetta var annar sigur AGF á tímabilinu og er liðið með átta stig að loknum sjö leikjum.

„Við vissum fyrir leikinn að við þyrftum á sjö stigum að halda. Við spiluðum vel strax frá fyrstu mínútu og fengum þrjú stig. Ég gæti ekki verið ánægðari. Við sýndum í dag að við getum spilað góðan fótbolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×