Innlent

Fáheyrt að ráðherra segi frá fundargerðum ríkisstjórnar

16. júlí 2009 samþykkti Alþingi með 33 atkvæðum gegn 28 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Prófessor í stjórnmálafræði segir fyrirvara einstakra ráðherra ekki hafa áhrif á þá umsókn.fréttablaðið/gva
16. júlí 2009 samþykkti Alþingi með 33 atkvæðum gegn 28 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Prófessor í stjórnmálafræði segir fyrirvara einstakra ráðherra ekki hafa áhrif á þá umsókn.fréttablaðið/gva
FRÉTTASKÝRING: Hvað þýða fyrirvarar innanríkisráðherra varðandi ESB?

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, þekkir engin dæmi þess að ráðherrar tjái sig um innihald fundargerða ríkisstjórna, líkt og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur gert undanfarið. Ögmundur hefur sagt frá fyrirvörum sem hann gerði við samningsmarkmið varðandi ESB.

Gunnar segir fundargerðir ríkisstjórnar vera trúnaðarmál og venjan sé að tjá sig ekki um það sem í þeim er.

„Ég kannast bara ekki við dæmi um svona lagað. Vandinn við að segja frá því hvað er í fundargerðum ríkisstjórna er sá að það getur enginn skoðað þær. Ég hugsa að flestir ráðherrar myndu telja það óeðlilegt að þeir færu að fjalla um það opinberlega sem í fundargerðunum hugsanlega væri.“

Gunnar Helgi segir að í raun geti Ögmundur sagt hvað sem er um fyrirvarana, enginn geti flett því upp í fundargerðunum nema aðrir ráðherrar.

Ögmundur segir að hann hafi gert fyrirvara við samningsmarkmiðin við ríkisstjórnarborðið í júlí. „Ég tók málið aftur upp á ríkisstjórnarfundi í ágúst og óskaði eftir sérstakri bókun.“

Gunnar Helgi segir að slík bókun hafi í sjálfu sér lítið vægi út á við. Hins vegar sé óheppilegt að ráðherra bóki gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.

„Í flestum löndum mundi það gilda að ráðherra sem væri ekki tilbúinn að styðja við stefnu ríkisstjórnarinnar ætti bara einn valkost; að segja af sér. Inn á við gæti hann bókað einhver mótmæli, sem væru fyrir söguna og ef einhver einstök málaferli hefðu risið upp, eitthvað sem varðaði hina lögformlegu ábyrgð hans. Að öðru leyti er erfitt að sjá hvaða gildi þetta ætti að hafa.“

En hafa slíkir fyrirvarar þá engin áhrif á stefnu stjórnarinnar gagnvart ESB?

„Nei, ég get ekki séð það. Til að breyta einhverju um slíkt hefði þurft ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því.“kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×