Innlent

Segir ábyrgðarlaust að gefa út atvinnuleyfi

Kristín  Völundardóttir
Kristín Völundardóttir
Til eru dæmi um að fólk sæki um hæli hér á landi til þess að vinna, en snúi til síns heima ef það fær ekki undanþágu á dvalar- og atvinnuleyfi. Þetta fólk ætlar að misnota kerfið, segir forstjóri Útlendingastofnunar.

Ákveðið hefur verið að hætta að veita undanþágur á bráðabirgðaatvinnu- og dvalarleyfum til þeirra hælisleitenda sem þegar hafa sótt um hæli í öðrum ríkjum sem eiga aðild að Dyflinnarsamkomulaginu. Hælisleitendur sem eru í efnismeðferð hjá stofnuninni fá hins vegar þetta dvalar- og atvinnuleyfi.

Hópur hælisleitenda mótmælti þessum breytingum við innanríkisráðuneytið á fimmtudag.

„Við erum að snúa aftur til þess að fara eftir lögunum,“ segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.

Kristín segir lögin heimila Útlendingastofnun að gefa út bráðabirgðaleyfi til hælisleitenda „að því gefnu að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar, ekki leiki vafi á hver umsækjandi er, tekin hafi verið hælisskýrsla og viðkomandi sé ekki í þessum Dyflinnarfasa,“ segir Kristín.

Árið 2008 hafi hins vegar verið tekin ákvörðun um að ýta þessum skilyrðum til hliðar vegna fjölgunar hælisleitenda, fjárskorts og skorts á vinnuafli. Nú hefur verið ákveðið að snúa til baka.

Kristín segir að mál hælisleitenda sem falla undir Dyflinnarsamkomulagið hafi verið sett í forgang hjá stofnuninni og nú sé svo komið að afgreiðslutími sé tveir til þrír mánuðir.

Umræddur hópur komi því líklega ekki til með að vera hér á landi í langan tíma og engar forsendur séu fyrir því að veita leyfi.

Þá sé það ábyrgðarlaust af hálfu Útlendingastofnunar að gefa út atvinnuleyfi á einstaklinga sem ekki sé vitað hverjir séu. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×