Menning

Sækist eftir stöðu Borgarleikhússtjóra í Ósló

Álfrún skrifar
Bjarni Haukur Þórsson var hvattur af norskum vinum til að sækja um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins í Ósló.
fRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Bjarni Haukur Þórsson var hvattur af norskum vinum til að sækja um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins í Ósló. fRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Það sakar ekki að reyna. Er maður ekki alltaf að leita að áskorunum í lífinu?,“ segir leikstjórinn, leikarinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson sem er á lista yfir umsækjendur um stöðu leikhússtjóra við Borgarleikhúsið í Ósló, eða Oslo Nye Teater.

Staðan er áhrifamikil í Noregi, enda er Borgarleikhúsið í Ósló eitt af fjórum stærstu leikhúsum landsins. Listi yfir umsækjendur var gerður opinber í byrjun vikunnar en 14 manns sækja um stöðuna. Bjarni er ekki ókunnur norska leiklistarbransanum því hann hefur meðal annars sett upp leiksýningar þar í landi. „Ég var hvattur af norskum vinum og kunningjum til að sækja um þessa stöðu, en ég er nú ekki vongóður um að verða ráðinn. Það eru ekki fordæmi fyrir því að útlendingur sé ráðinn í stöðu sem þessa,“ segir Bjarni Haukur, sem þessa dagana er með í bígerð framleiðslu kvikmyndar sem verður byggð á leikritinu Afanum eftir hann sjálfan.

Borgarleikhúsið í Ósló hefur gengið í gegnum fjárhagsörðugleika undanfarið og ákveðin uppstokkun á sér stað innan leikhússins. Bjarni segir þær breytingar sem fram undan eru hjá leikhúsinu spennandi og hann sé tilbúinn að taka þátt í þeim ef þess er óskað. „Það eru breytingar í pípunum innan leikhússins sem gera starfið mjög áhugvert. Ég lauk MBA-prófi í fyrra og þetta starf er rökrétt framhald á því námi.“

Bjarni segist ekki kominn svo langt að hugsa hvað hann myndi gera yrði hann ráðinn. Samningurinn hljóðar upp fjögur ár og nýr leikhússtjóri tekur við í janúar 2014. Bjarni þekkir hins vegar vel til í Noregi og segist skilja norskuna ágætlega, en hann talar sænsku reiprennandi. „Ég ólst upp í Svíþjóð og maður kemst nokkuð langt á sænskunni í Noregi. Það er hins vegar nóg að gera hjá mér núna svo ég hef lítið náð að hugsa um þetta, enda eru ekki miklar líkur á því að ég verði ráðinn. Við sjáum hvað setur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×