Menning

Einleikur um vændi á Vinnslunni

Lilja Nótt flytur einleik á Norðurpólnum í kvöld með ráðleggingum til þeirra sem hyggjast leggja vændi fyrir sig.Fréttablaðið/Vilhelm
Lilja Nótt flytur einleik á Norðurpólnum í kvöld með ráðleggingum til þeirra sem hyggjast leggja vændi fyrir sig.Fréttablaðið/Vilhelm
"Við erum að skoða hvort það að banna vændi færi það bara lengra undir yfirborðið og geri það þar af leiðandi verra," segir Lilja Nótt Þórarinsdóttir, sem mun flytja einleik eftir Guðmund Inga Þorvaldsson á klósetti fyrir fatlaða á Norðurpólnum í kvöld. "Ég er ósammála Gumma um að það þurfi að ræða þetta, ég vil bara að það sé bannað, en það gerir það bara enn meira spennandi fyrir okkur að vinna saman."

Guðmundur Ingi byggir einleikinn á bókinni When Sex Becomes Work eftir hollenska konu sem heitir Mariska Majoor. "Hún er ekki að hvetja fólk til að stunda vændi," segir Guðmundur Ingi, "heldur að tala til þeirra sem eru búnir að ákveða, eða eru alvarlega að velta fyrir sér, að byrja að stunda vændi. Í bókinni heldur hún því fram að ef þú sért búinn að ákveða að byrja sé betra fyrir þig að vita ákveðna hluti en að þurfa að læra með því að reka sig á. Hún er fyrrverandi vændiskona sem stofnaði og heldur úti Prostitute Information Center í Amsterdam og vill meina að eina leiðin til að eiga við vændi sé að lögleiða það."

Hvernig kom þetta til? "Hugmyndin og verkstjórnin er algerlega mín en Vinnslan – sviðslistahópur setur þetta upp," segir Guðmundur. "Ekkert okkar er á nokkurn hátt hallt undir vændi. Við viljum bara bera upp þessa spurningu við almenning. Best er að taka fram að verkið er í vinnslu og þetta er fyrsta tilraun."

Einleikurinn er hluti af dagskránni Vinnslan 4 þar sem um þrjátíu listamenn koma fram og sýna verk sín. Listamennirnir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þarna koma fram sviðslistamenn, tónlistarmenn, myndlistarmenn, vídeólistamenn, dansarar og fleiri og fleiri. Dagskráin hefst klukkan 20 á laugardagskvöld og stendur til 1 eftir miðnætti.

Listrænir stjórnendur Vinnsl-unnar eru Vala Ómarsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, María Kjartansdóttir og Birgir Hilmarsson. Vinnsluna setja þau upp í samvinnu við Alheiminn – Norðurpóllinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×