Erlent

Krafa um að Sýrlandsforseti fallist á vopnahlé

Eldar loga í Homs Linnulausar árásir á íbúa borgarinnar hafa staðið vikum saman.nordicphotos/AFP
Eldar loga í Homs Linnulausar árásir á íbúa borgarinnar hafa staðið vikum saman.nordicphotos/AFP
Franska fréttakonan Edith Bouvier, sem særðist í sprengjuárás í borginni Homs á miðvikudag, óskar eftir því að frönsk stjórnvöld aðstoði sig við að komast úr landi.

Hún er tvífótbrotin, hefur fengið einhverja læknismeðferð en þarf á aðgerð að halda sem vart er í boði í Sýrlandi.

Fulltrúar frá Bandaríkjunum, fleiri Vesturlöndum og frá arabalöndum voru í gær í London að undirbúa kröfur um að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti fallist á vopnahlé svo hægt verði að koma fólki til hjálpar á þeim stöðum sem verst hafa orðið úti.

Um þrjátíu manns létu lífið í árásum stjórnarhersins á Homs á miðvikudag, þar á meðal tveir vestrænir blaðamenn. Linnulausar árásir á íbúa borgarinnar hafa staðið yfir í um þrjár vikur. Hundruð manna hafa látið lífið og hefur árásunum verið líkt við suma verstu stríðsglæpi sögunnar. Aðgerðir hersins gegn mótmælendum og uppreisnarmönnum hafa kostað þúsundir manna lífið undanfarið ár.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið saman lista yfir háttsetta sýrlenska ráðamenn sem gætu átt yfir höfði sér málaferli vegna glæpa gegn mannkyni. Evrópusambandið hefur þegar samþykkt refsiaðgerðir gegn 70 sýrlenskum ráðamönnum og í undirbúningi er að setja fleiri á þann lista.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×