Erlent

Barið í bresti stjórnarandstöðu Sýrlands

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í Doha Burhan Ghalioun, leiðtogi Sýrlenska þjóðarráðsins, (til vinstri) heilsar gestum á fundi stjórnarandstöðuflokksins í Doha í Katar í gær.
Í Doha Burhan Ghalioun, leiðtogi Sýrlenska þjóðarráðsins, (til vinstri) heilsar gestum á fundi stjórnarandstöðuflokksins í Doha í Katar í gær. Fréttablaðið/AP
Lykilþjóðir styðja viðleitni til að styrkja og efla samheldni hópa sem barist hafa á móti stjórnvöldum í Sýrlandi, að sögn höfundar áætlunarinnar. Stjórnarandstaðan hefur víða verið gagnrýnd fyrir ósamstöðu. Þá hafa hópar stjórnarandstæðinga þegar lýst andstöðu við fyrirætlanirnar.

Fimm daga ráðstefna, sem ætlað er að bera klæði á vopnin í innbyrðis erjum sem hamlað hafa stjórnarandstæðingum Sýrlandsstjórnar í átökum í Sýrlandi, hófst í Doha í Katar í gær.



Í Sýrlandi Konu og börnum bjargað úr húsi sem varð fyrir loftárás stjórnarhersins í bænum Al-Bab í gær.Nordicphotos/AFP
Mikið er í húfi, því takist ekki umbætur í samstarfi andstöðuhópa, sem reyna að koma Bashar Assad Sýrlandsforseta frá völdum, þá gætu þeir orðið af alþjóðlegri aðstoð í baráttu sinni. Vegna þess hversu brotakennd baráttan hefur verið og stjórn hennar laus í reipum hafa vestræn stjórnvöld verið óviljug til að senda stjórnarandstæðingum peninga eða annan stuðning, svo sem í formi vopna.

Riad Seif, sem hefur verið framarlega í baráttu sýrlenskra andófsmanna, hefur lagt til að komið verði á stjórn 50 manna sem leiði baráttuna gegn Sýrlandsstjórn. Þar á meðal verði fulltrúar hópa innan úr Sýrlandi, svo sem herforingjar og leiðtogar hópa stjórnarandstöðuflokka sem náð hafa landssvæðum í Sýrlandi undir sína stjórn. Hópar sem berjast í Sýrlandi, þar á meðal uppreisnarhópurinn Frjálsi Sýrlandsherinn, hafa ekki verið hrifnir af hugmyndum um stjórnarandstöðuleiðsögn í útlegð.

Áætlunin myndi draga verulega úr áhrifum aðalstjórnarandstöðu hópsins, Sýrlenska þjóðarráðsins. Hópurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að vera óskilvirkur og úr tengslum við það sem er að gerast í landinu, en hann samanstendur að mestu af fræðimönnum og öðrum sem hrakist hafa frá Sýrlandi.

Seif sagði blaðamönnum í Doha í gær að á annan tug lykillanda styddu áætlun hans, en tiltók ekki hvaða lönd það væru, né heldur af hverju hann teldi sig hafa stuðning þeirra.

Yfir 400 fulltrúar sækja ráðstefnuna, en á henni kýs þjóðarráðið sér nýja stjórn, áður en kosið verður um áætlun Seifs á miðvikudag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×