Erlent

Bretar vilja skrásetja brjóstastækkunaraðgerðir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Brjóstastækkun.
Brjóstastækkun.

Heilbrigðisráðherra Bretlands er hlynntur því að tekin verði upp heildarskráning sílikonaðgerða á brjóstum. Skortur á skráningu torveldar samantekt á fjölda þeirra sílikonpúða sem hafa rifnað.



Bresk yfirvöld gáfu út fyrir helgina að þau ætluðu að endurskoða áhættumat vegna PIP sílikonpúðana sem framleiddir voru í Frakklandi. Frakkar voru eina þjóðin sem sérstaklega varaði við púðunum en í öðrum Evrópulöndum þar sem púðarnir voru notaðir, var því haldið fram að þeir væru ekki skaðlegri en aðrir púðar.



Í ljós hefur komið að fleiri PIP fyllingar hafa rofnað í Bretlandi en áður var vitað, og því ætla Bretar að endurmeta stöðuna.



Fjallað er um málið á BBC þar sem formaður félags skurðlækna í Bretlandi segir nauðsynlegt að skrá allar sílikonaðgerðir á brjóstum því þannig yrðu hugsanlega vandamál með fyllingar ljós yfirvöldum fyrr en ella.



Andrew Lansley, heilbrigðisráðherra Bretlands, segist þar aðspurður telja vel hugsanlegt að slík gagnasöfnun verði að veruleika. Hann bendir á að í Bretlandi var þessum upplýsingum haldið saman fram til ársins 2006, en þeirri skráningu var hætt vegna andstöðu kvenna með sílikonbrjóst.



Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hafa meðal annars miðað sig við rannsóknir breskra sérfræðinga og lýstu því einnig yfir að fyllingarnar væru ekki taldar skaðlegri en aðrar sílikonfyllingar. Með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum frá Bretlandi má búast við að fleiri þjóðir telji að endurskoða þurfi áhættumatið. Bretar segja þó ekkert liggja fyrir um að PIP púðarnir séu í raun skaðlegri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×