Fótbolti

Stutt á milli stórleikja hjá Söru og Þóru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir.
Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir.
Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir áttu möguleika að því að vera sænskir meistarar með LdB Malmö í gær með sigri á Umeå. 1-1 jafntefli þýðir hinsvegar að LdB Malmö mætir Tyresö í hreinum úrslitaleik um sænska titilinn um næstu helgi.

Það er svo sannarlega stutt á milli stórleikja hjá Söru og Þóru. Þær tóku þátt í því að tryggja íslenska landsliðinu farseðil á Evrópumótið í Svíþjóð á fimmtudaginn og spiluðu síðan gríðarlega mikilvægan deildarleik aðeins þremur dögum síðar. Báðar léku þær í 90 mínútur í báðum leikjum.

Framundan eru síðar tveir leikir við ítalska liðið Bardolino Verona í Meistaradeildinni og svo úrslitaleikurinn um titilinn á móti Tyresö.

LdB Malmö spilar fyrri leikinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á móti Bardolino á miðvikudaginn, úrslitaleikinn við Tyresö á laugdaginn og svo seinni leikinn við Bardolino í vikunni á eftir.

Að loknum seinni leiknum við Bardolino eiga þær Sara og Þóra möguleika á því að vera búnar að tryggja sér sæti á EM, vinna sænska titilinn og tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og það á aðeins þrettán dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×