Fótbolti

Veigar: Ég var seldur á smáaura miðað við hvað ég gat í fótbolta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Veigar Páll á æfingu með íslenska landsliðinu.
Veigar Páll á æfingu með íslenska landsliðinu.
Saksóknari í Noregi hefur krafist fimm mánaða fangelsisdóms yfir þremur forsvarsmönnum Stabæk og þriggja mánaða yfir forráðamanni Vålerenga. Norsku knattspyrnufélögin eru sökuð um að hafa haft umtalsverðar fjárhæðir af franska félaginu Nancy.

Málið snýst um sölu Veigars Páls Gunnarssonar frá Stabæk til Vålerenga árið 2011. Nancy átti rétt á helming söluvirðis Veigars Páls sem var seldur á eina milljón norskra króna. Á sama tíma var ungur leikmaður Stabæk seldur til Vålerenga á fjórar milljónir norskra króna.

Heilmikið er fjallað um málið í norskum miðlum en réttarhöldin hafa staðið yfir í á þriðju viku. Dagbladet er einn þeirra miðla sem fjallar um málið í dag.

„Þetta er hundleiðinlegt mál sem er búið að vera núna í tvö og hálft ár,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson í viðtali í útvarpsþættinum Reitaboltanum. Veigar Páll segir að viðskiptin hafi verið kolólögleg að hans mati.

„Ég var seldur á einhverja smáaura, miðað við hvað maður gat þá í fótbolta. Síðan var fimmtán eða sextán ára strákur seldur á 90 milljónir íslenskar á meðan ég var seldur á 20 milljónir. Maður þarf ekki að vera neitt svakalega klókur í hausnum til að sjá að það hafi verið eitthvað gruggugt við þetta," sagði Veigar Páll.

Forráðamaður Rosenborg staðfesti við vitnaleiðslur að félagið hefði gert tilboð í Veigar Páll upp á 2,5 milljónir norskra króna. Því tilboði var hins vegar hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×