Erlent

Sagði frá staðsetningu Bin Laden árið 2003

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Osama Bin Laden fannst og var drepinn árið 2011.
Osama Bin Laden fannst og var drepinn árið 2011. Mynd/Getty Images
Bandaríkjamaður hefur farið fram á 25 milljónir dala í fundalaun frá bandarísku alríkislögreglunni [FBI] fyrir ábendingu sem á að hafa leitt til þess að Osama Bin Laden fannst og var drepinn árið 2011.

Maðurinn sem heitir Tom Lee heldur því fram að hann hafi sent inn ábendingu árið 2003 um Bin Laden héldi sig í húsi á milli Peshawar og Abbottabad í Pakistan. Upplýsingarnar fékk hann frá vini sínum í Pakistan sem starfar sem njósnari. Bin Laden fannst í húsi sem rímar við þessar upplýsingar og var drepinn í vel heppnaðri hernaðaraðgerð bandaríska hersins.

Lee er 63 ára gamall og starfar sem dementasölumaður. Hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til að innheimta fundarlaun frá FBI en án árangurs. Í bréfi frá lögmanni Lee til James Comey, forstjóra FBI, segir meðal annars að Lee hafi bent með nákvæmum hætti á staðsetningu Bin Laden.

Lee er einnig ósáttur að þær upplýsingar sem hann gaf FBI hafi ekki verið teknar trúanlegar og það hafi tekið stofnunin átta ár að finna Bin Landen þrátt fyrir að hafa upplýsingar um dvalarstað hryðjuverkaleiðtogans undir höndum allan tímann.

„Það truflar mig, og ætti einnig að trufla hvern einasta Bandaríkjamann, að ég sagði þeim frá því árið 2003 hvar Bin Laden væri að finna en hann fékk samt að lifa í átta ár í viðbót,“ segir Lee við Grand Rapids Press.

FBI lofaði fundarlaunum til þeirra sem gætu hjálpað við að finna Bin Laden og samverkamenn hans. FBI hefur neitað að tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×