Menning

Ofbeldi er skemmtilegt ef það er í plati

Leikhópurinn Sticks and Stones samanstendur af leikstjóranum Tryggva Gunnarssyni, leikurunum Ingrid Rusten frá Noregi, Piet Gitz-Johansen frá Danmörku og senógrafernum Lisa Hjalmarson frá Svíþjóð.
Leikhópurinn Sticks and Stones samanstendur af leikstjóranum Tryggva Gunnarssyni, leikurunum Ingrid Rusten frá Noregi, Piet Gitz-Johansen frá Danmörku og senógrafernum Lisa Hjalmarson frá Svíþjóð.
Undanfarna tvo mánuði hafa meðlimir leikhópsins Sticks and Stones velt fyrir sér spurningum um ofbeldi, ásamt því að dunda sér við að deyja og drepa hvorn annan á sviðinu.

Á morgun frumsýnir hópurinn sýninguna Punch í rými Leikfélags Akureyrar. Það fjallar um gleðina sem fólgin er í sviðsettu ofbeldi, hvort sem um ræðir framkvæmd þess eða að horfa á það.

„Ofbeldi er hræðilegt, hver sem birtingamynd þess er," segir Tryggvi Gunnarsson leikstjóri. „En samt höfum við ótrúlega gaman af því, ef það er allt í plati. Og okkur finnst ekki síðra að fá að framkvæma það á sviðinu. En hvenær gengur leikurinn of langt? Við reynum að komast að því hvar mörkin liggja."

Punch byggir á aldagamla leikritinu „Sorglega gamansagan eða gamansama sorgarsagan af Punch og Judy". Söguþráðurinn þess er einfaldlega sá að Punch drepur alla þá sem á vegi hans verða. Hann hefst handa á eigin barni, og endar á því að drepa sjálfan djöfulinn.

„Þetta er ekki falleg saga, það er óhætt að segja það. Og ótrúlegt að upprunalega var Punch ætlaður börnum," segir Tryggvi. „En við förum aðra leið og þó við veljum að sýna ofbeldið á ögn nýstárlegri hátt er sýningin alls ekki ætluð ungum og óhörnuðum."

Leikhópurinn Sticks and Stones samanstendur af leikstjóranum Tryggva Gunnarssyni, leikurunum Ingrid Rusten frá Noregi, Piet Gitz-Johansen frá Danmörku og senógrafernum Lisu Hjalmarson frá Svíþjóð.

„Verkið er á ensku, enda höfum við öll mismunandi móðurmál," segir Tryggvi. „En það tala allir sama tungumálið er kemur að ofbeldi. Þar að auki höfum við valið sjónræna nálgun á viðfangsefnið, enda miklu skemmtilegra að horfa á ofbeldi en bara tala um það."

Sýningar verða á Akureyri helgina 22. til 24. febrúar og svo í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi 28. til 4. mars. Sýningar verða þar að auki í Noregi og Danmörku í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.