Menning

Dan Brown skrifar um Gleðileik Dante

Dan Brown hefur skrifað spennusögur um kaþólsku kirkjuna, Leonardo Da Vinci og frímúrararegluna en bætir nú við bók um Dante.
Dan Brown hefur skrifað spennusögur um kaþólsku kirkjuna, Leonardo Da Vinci og frímúrararegluna en bætir nú við bók um Dante.
Dan Brown, höfundur metsólubóka á borð við Da Vinci lykilinn og Engla og djöfla, sendir frá sér nýja bók um miðjan maí næstkomandi. Sú nefnist Inferno, eða Víti eins og það útleggst á íslensku. Bókin gerist á Ítalíu og í henni rannsakar dulmálsfræðingurinn Robert Langdon mál þar sem Hinn guðdómlegi gleðileikur Dantes er í forgrunni. Tilkynnt var um útgáfu bókarinnar í vikunni.

"Þótt ég hafi kynnst Dante á námsárum mínum var það ekki fyrr en nýlega þegar ég var við rannsóknir sem ég áttaði mig á því hvers víðtæk áhrif verk hans hafa haft á nútímann," er haft eftir Brown í fréttatilkynningu og lofar hann lesendum spennuþrunginni sögu þar sem dulmálslyklar og tákn koma við sögu.

Dan Brown er einn alvinsælasti rithöfundur heims. Da Vinci lykillinn hefur selst í um 82 milljónum eintaka en síðasta bók hans, Týnda táknið, hefur verið prentuð í yfir 30 milljónum eintaka á mörgum tungumálum.

Bjartur hefur gefið út fyrri bækur Dans Brown hér á landi og hefur tryggt sér útgáfuréttinn á Inferno. Samkvæmt upplýsingum frá forlaginu verður bókin send til þýðenda von bráðar og kemur hún því væntanlega út á íslensku fljótlega eftir útgáfu á frummálinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×