Enski boltinn

Sneijder spenntur fyrir ensku deildinni en vill ekki sjá QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder.
Wesley Sneijder. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollenski landsliðsmaðurinn Wesley Sneijder hefur lítið spilað með Internazionale í ítalska A-deildinni á þessu tímabili vegna bæði meiðsla og deilna við félag sitt um samningamál. Sneijder hefur ekki spilað með liði sínu síðan í september og er að leita sér að nýju félagi.

Wesley Sneijder hefur meðal annars verið orðaður við enska félagið Queens Park Rangers en umboðsmaður hans Sören Lerby segir að leikmaðurinn hafi engan áhuga á því að spila fyrir Harry Redknapp hjá QPR.

„Wesley er einn af bestu miðjumönnum í Evrópu og við verðum að finna lausn á hans stöðu. England er líklega með bestu deild í Evrópu sem vissulega heillar en Wes vill komast að hjá toppliði. Hann hefur alls engan áhuga á QPR og við höfum hvort sem er ekki heyrt frá neinum þar," sagði Sören Lerby við BBC.

„Sneijder er í mjög skrýtinni stöðu. Hann er búinn að ná sér af fullu af meiðslunum og elskar að spila fótbolta. Við ættum að vita meira á næsti sjö til tíu dögum," sagði Lerby.

Wesley Sneijder er 28 ára gamall sóknarmiðjumaður sem spilað með Ajax og Real Madrid áður en hann kom til Internazionale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×