Erlent

Grátbað hrottana um að hætta

Frá mótmælum í Nýju-Delí
Frá mótmælum í Nýju-Delí Mynd/AFP
Vinur indversku konunnar sem lést eftir hrottalega hópnauðgun um síðustu helgi hefur nú í fyrsta sinn talað opinberlega um það hvernig hann reyndi að bjarga henni og þá grimmd sem enginn ætti nokkurn tímann að sjá.

Maðurinn treysti sér ekki til að koma fram undir nafni en í viðtali við indverska fréttastöð ræddi hann árásina. Hann lýsti því hvernig hann var barinn þar til hann missti meðvitund eftir þau komu um borð í strætisvagninn.

Sex karlmenn réðust á þau og nauðguðu og misþrymdu konunni. Maðurinn sem er tuttugu og átta ára sagði það að hafa farið í strætisvagninn vera mestu mistök ævi sinnar. Enginn eigi að sjá þá grimmd sem hann hafi upplifað.

Hann hafi reynt að berjast gegn mönnunum en þegar það bar engan árangur hafi hann grátbeðið árásarmennina aftur og aftur um að láta konuna vera.

Maðurinn sagði þau hafa legið blóðug og nakin úti á götu hátt í klukkustund eftir að þeim var kastað út úr strætisvaginum. Vegfarendur hafi ekki komið þeim til hjálpar.

Þá gagnrýndi hann lögregluna fyrir viðbrögð sín og hversu langan tíma þau biðu eftir aðstoð. Hann sagðist einnig ósáttur við þá læknishjálp sem konan fékk strax við komuna á sjúkrahús.

Fimm karlmenn sem tóku þátt í árásinni voru á fimmtudaginn ákærðir fyrir morð, nauðgun og mannrán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×