Menning

Tölfræðingurinn hefur talað - Argo sigrar í kvöld

Stórmynd bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Ben Affleck, Argo, verður valin besta kvikmyndin á 85. Óskarsverðlaunahátíðinni í kvöld. Þetta eru niðurstöður tölfræðingsins Nate Silver.

Silver hefur getið sér gott orð fyrir spár sínar um niðurstöður forseta- og þingkosninga í Bandaríkjunum og hafa pistlar hans á vefsvæði fréttablaðsins The New York Times vakið mikla athygli.

Silver hefur nú tekið að sér að rýna í Óskarsverðlaunin en niðurstöðurnar hátíðarinnar í ár þykja afar óútreiknanlegar. Tölfræðingurinn bendir á að það ferli sem býr að baki vali á kvikmyndum og kvikmyndagerðarmönnum ársins sé að mörgu leyti svipað því sem gengur og gerist í bandarískri pólitík.

Meðlimir Óskarsverðlaunaakademíunnar er rúmlega sex þúsund talsins.

MYND/AP
Samkvæmt útreikningum Silvers er ljóst að kvikmyndin Argo mun hreppa eftirsóttustu verðlaun kvikmyndaiðnaðarins í ár. Silver rökstyður þessar niðurstöður með vísan í gott gengi myndarinnar á kvikmynda- og verðlaunahátíðum víða um heim.

Þegar kemur að vali á leikstjóra ársins eru niðurstöðurnar nokkuð óljósar. Svo virðist sem að baráttan sé á milli Steve Spielbergs, fyrir kvikmyndina Lincoln, og Ang Lee fyrir Life of Pi.

Þá hreppir breski stórleikarinn Daniel Day-Lewis verðlaun fyrir hlutverk sitt í Lincoln og leikkonan Jennifer Lawrence gerir slíkt hið sama fyrir leik í kvikmyndinni Silver Linings Playbook.

Aukaleikarar ársins, samkvæmt formúlu Silvers, eru þau Tommy Lee Jones fyrir Lincoln og Anne Hathaway fyrir Les Misérables.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×