Enski boltinn

Óafsakanleg hegðun hjá Suarez

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Luis Suarez, leikmaður Liverpool, beit Branislav Ivanovic, varnarmann Chelsea, í höndina í 2-2 jafntefli Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi ekki tjá sig um atvikið strax eftir leik. Síðan hefur hann sagt hegðun framherjans óafsakanlega.

„Þetta er félag sem hefur siðferði og góð gildi í hávegum," sagði Rodgers í viðtali við BBC eftir leikinn. Um atvikið sagðist hann þurfa að skoða það.

„Félagið í heild sinni mun taka atvikið til skoðunar. Það er klárlega engin stærri en félagið, hvorki leikmaður né knattspyrnustjóri," sagði Rodgers.

Suarez fagnar jöfnunarmarki sínu.Nordicphotos/Getty
Norður-Írinn minnti á að þjálfarateymið og leikmenn Liverpool væru alltaf fulltrúar félagsins innan sem utan vallar.

„En nú er ekki tíminn til þess að tjá sig um atvikið. Ég mun alltaf vera heiðarlegur í ummælum mínum um leikmenn mína og verja þá þegar ég get. En með fulltri virðingu fyrir ykkur þá verð ég að fá að skoða atvikið fyrst," sagði Rodgers við fréttamenn sem gengu á stjórann.

Atvikið umdeilda.Nordicphotos/AFP
„Ég mun alltaf verja leikmenn þegar ég tel þá hafa rétt fyrir sér. Ef þeir hafa rangt fyrir sér læt ég þá vita. Það hefur þegar komið fyrir í tilfelli Luis á þessari leiktíð," sagði Rodgers.

Rafa Benitez, sem sneri aftur á sinn gamla heimavöll, sagðist ekki hafa séð atvikið. Hann sagðist ekki hafa rætt um atvikið við leikmenn sína því menn væru enn að svekkja sig á jöfnunarmarkinu undir lokin. Markið skoraði Luis Suarez.

Mörkin úr leiknum og atvikið umdeilda má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Uppfært klukkan 20.10:

„Eftir að hafa horft á myndband af atvikinu og rætt við Luis er ljóst að hegðun hans er óafsakanleg og ég hef gert honum grein fyrir því," segir í yfirlýsingu frá Brendan Rodgers vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×