Menning

Saga sem hefur fallið í gleymskunnar dá

Freyr Bjarnason skrifar
Grímur Hákonarson leikstýrir heimildarmyndinni Hvelli sem verður frumsýnd á fimmtudaginn.
fréttablaðið/gva
Grímur Hákonarson leikstýrir heimildarmyndinni Hvelli sem verður frumsýnd á fimmtudaginn. fréttablaðið/gva
"Við erum búin að vanda okkur mjög mikið. Það er mikil ábyrgð að gera þessari sögu skil," segir Grímur Hákonarson, leikstjóri heimildarmyndarinnar Hvells.

Hún gerist sumarið 1970 þegar hart var deilt á Íslandi um virkjun Laxár í Mývatnssveit. Þann 25. ágúst tóku 113 Þingeyingar lögin í sínar hendur og sprengdu í loft upp stíflu í Laxá.

"Það verður umhverfisvakning í kjölfar þessa máls og það er oft talað um að þetta sé upphaf náttúruverndar," segir Grímur.

Umfjöllunarefni Hvells átti upphaflega að vera í heimildarmyndinni Draumalandið sem kom út 2009. Framleiðendur hennar höfðu samband við Grím og báðu hann um að gera sérstaka heimildarmynd um efnið vegna þess hversu áhugavert það var. "Þetta er merkilegur atburður í Íslandssögunni og ein stærsta borgaralega óhlýðnin sem hefur komið upp á Íslandi."

Tökur á myndinni fóru fram sumarið 2010 og eftirvinnslan stóð yfir í tvö og hálft ár. "Við vildum gera þetta eins vel og við gátum. Það fór talsvert mikil vinna í að grafa upp gamalt efni," segir leikstjórinn.

Rúm fjörutíu ár eru liðin síðan atburðirnir í heimildarmyndinni gerðust. "Við vorum dálítið á síðasta snúningi að gera þessa mynd því það eru mjög margir látnir sem voru viðriðnir málið. Myndin er fyrst og fremst um fólkið í sveitinni sem býr þarna í dag. Þessi saga hefur dálítið fallið í gleymsku. Þetta var eitt heitasta málið í þjóðfélaginu," segir Grímur, sem hefur áður gert heimildarmyndirnar Varði fer á vertíð, Varði Goes Europe, Bræðrabyltu og Hreint hjarta sem hlaut fyrstu verðlaun á Skjaldborgarhátíðinni. Einnig gerði hann kvikmyndina Sumarlandið.

"Þetta var mjög góður skóli," segir hann um Hvell. "Þarna komu í ljós ýmsir hlutir sem höfðu aldrei komið fram opinberlega um þetta mál. Það var áskorun að finna út hver það var sem sprengdi stífluna. Það tók tíma að fá fólk til að opna sig."

Hvellur var frumsýndur í Mývatnssveit á sunnudagskvöld við góðar undirtektir heimamanna. "Það má segja að maður hafi staðist prófraunina," segir Grímur sáttur. Almennar sýningar á myndinni hefjast í Bíói Paradís á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×