Vanda Sigurgeirsdóttir og stelpurnar hennar í Þrótti unnu í kvöld sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild kvenna í sumar þegar liðið vann sannkallaðan sex stiga leik á móti Aftureldingu á Valbjarnarvellinum.
Hin 16 ára gamla Eva Bergrín Ólafsdóttir skoraði eina mark leiksins þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Þetta var fyrsta mark Evu í Pepsi-deildinni og það gæti reynst einstaklega mikilvægt.
Þróttur var búið að tapa tíu fyrstu leikjum sínum en er nú aðeins einu stigi á eftir HK/Víkingi sem á leik inni á móti ÍBV á morgun.
Selfoss og FH gerðu markalaust jafntefli á Selfossi þar sem Selfossliðið lék manni fleiri síðustu 26 mínútur leiksins.
Blikakonur voru sjálfum sér verstar í 1-2 tapi á móti Val á Hlíðarenda því þær klúðruðu víti í stöðunni 0-0 og skoruðu síðan tvö sjálfsmörk með fjögurra mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik.
Stjörnukonur náðu tíu stiga forskoti á toppi Pepsi-deildar kvenna eftir 3-o sigur á Íslandsmeisturum Þór/KA á Samsung-vellinum í Garðabæ. Stjörnuliðið hafði mikla yfirburði en mörkin litu ekki dagsins ljós fyrr en á síðustu 22 mínútunum. Harpa Þorsteinsdóttir, markahæsti leikmaður deildarinnar skoraði tvö mörk í leiknum.
Úrslit og markaskorarar í Peppsi-deild kvenna í kvöld:
Valur - Breiðablik 2-1
1-0 Sjálfsmark (67.), 2-0 Sjálfsmark (71.), 2-1 Greta Mjöll Samúelsdóttir (90+3).
Stjarnan - Þór/KA 3-0
1-0 Harpa Þorsteinsdóttir (69.), 2-0 Glódís Perla Viggósdóttir (77.), 3-0 Harpa (90.+3).
Selfoss - FH 0-0
Þróttur R. - Afturelding 1-0
1-0 Eva Bergrín Ólafsdóttir (48.).
