Innlent

Hemmi Gunn látinn

mynd/stefán karlsson

Fjölmiðlamaðurinn ástsæli, Hermann Gunnarsson, er látinn, 66 ára að aldri. Hann varð bráðkvaddur á Taílandi í dag þar sem hann var staddur í fríi.

Hermann, sem flestir landsmenn þekkja sem Hemma Gunn, fæddist í Reykjavík 9. desember 1946 og foreldrar hans voru Björg Sigríður Hermannsdóttir og Gunnar Gíslason.

Hemmi var einn atkvæðamesti íþróttamaður Íslands á árum áður. Hann var einn fremsti knattspyrnumaður landsins á sjöunda áratugnum og spilaði með Val á blómaskeiði félagsins. Hemmi þótti einnig nokkuð liðtækur í handbolta og lék nokkra landsleiki í íþróttinni. Hann átti meðal annars markametið yfir flest mörk skoruð í landsleik í mörg ár.

Tónlist var Hermanni hugleikin og var hann meðlimur Sumargleðinnar sem skemmti landsmönnum um langt skeið. Hann söng inn á hljómplötur, og sólóplata hans, Frískur og fjörugur, er í uppáhaldi hjá mörgum.

Að knattspyrnuferlinum loknum hóf hann störf sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Á níunda áratugnum hóf hann að stjórna sínum eigin sjónvarpsþætti hjá RÚV, Á tali hjá Hemma Gunn, og náði þátturinn miklum vinsældum. Einkennisorð Hemma í þættinum voru: „Verið hress, ekkert stress, bless bless.“

Þá starfaði hann um árabil hjá 365, bæði við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Hermann lét af störfum hjá fyrirtækinu í lok apríl og hugðist leggja lokahönd á sjálfsævisögu sína, Lífshlaup Hemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×