Innlent

Flugdólgurinn öskraði á lögregluna "Það er snákur á fætinum mínum“

Bandaríska blaðið New York Post fjallar um íslenska flugdólginn um borð í vél Icelandair á fimmtudag.

Á vefsíðu blaðsins, sem nafngreinir manninn, segir að auk þess að hafa drukkið heila Tópas-flösku hafi hann verið búinn að fela litlar flöskur af sterku áfengi, meðal annars Grand Marnier, Viskí og Snapps, í sætishólfinu fyrir framan sig.

Blaðið rekur alla söguna og talar meðal annars við vitni að atvikinu. Þar segir einn farþeginn að maðurinn hafi drukkið stíft í þrjá klukkutíma.

Þegar maðurinn fór að ókyrrast, eftir að um tveir tímar voru til lendingar, báðu tvær konur sem sátu við hlið hans, tvo menn frá Gvatemala að skipta um sæti við sig - því þeim leið ekki vel í þessu aðstæðum.

Þeir samþykktu það en þá sýndi maðurinn ofbeldistilburði. „Hann reyndi að grípa og kyrkja mennina," segir einn farþeginn. „Hann reyndi áður að kyrkja konu sem sat nálægt honum og öskraði að vélin væri að hrapa."

Haft er eftir lögreglumanni að hann hafi hegðað sér eins og sumir ölvaðir menn gera, til dæmis að setja upp tvo hnefa fyrir framan andlitið á sér, eins og hann sé að biðja um slagsmál.

Það voru mennirnir frá Gvatemala sem sáu að mestu um að tjóðra manninn við sæti sitt og sat hann þannig í tvo klukkutíma.

Þegar vélin lenti gengu allir farþegarnir framhjá honum, þar sem hann sat fastur við sæti sitt, samkvæmt upplýsingum Vísis.

Hann var svo handtekinn og á síðunni segir þegar hann var leiddur út í járnum hafi hann öskrað: „Það er snákur á fætinum mínum" þegar hann gekk um flugstöðina.

Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann fékk meðferð vegna áfengiseitrunar. Hann var á einn á ferð, en hann býr í Trinidad og Tobagó og var á leiðinni að hitta unnustu sína.

Hann verður ekki ákærður vegna athæfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×