Innlent

Annar flugdólgur í vél Icelandair

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flugvélin var að koma frá Bandaríkjunum.
Flugvélin var að koma frá Bandaríkjunum. Mynd/ Valli.
Farþegar í vél Icelandair sem var að koma frá Washington í Bandaríkjunum á miðvikudagsmorgun yfirbuguðu karlmann sem lét ófriðlega þegar vélin var í lendingu í Keflavík.

Farþegar höfðu verið beðnir um að halda kyrru fyrir í sætum sínum í lendingu. Samkvæmt upplýsingum sem Vísir hefur frá farþegum í vélinni sinnti maðurinn, sem virtist ölvaður, ekki þeim boðum. Hann hafði að auki verið að áreita aðra farþega í vélinni. Farþegar vélarinnar tóku því til sinna ráða, yfirbuguðu manninn og tveir þeirra héldu honum í sæti sínu á meðan vélin lenti. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair staðfesti að í umræddu flugi hefði komið upp atvik þar sem farþegar hefðu þurft að halda manninum niðri. Hann sagði að til skoðunar væri til hvaða ráðstafana yrði gripið vegna atviksins.

Þetta er í annað sinn sem karlmaður er yfirbugaður í vél Icelandair en það varð að heimsfrétt þegar Íslendingur var reyrður niður í vél með límbandi þegar flogið var frá Keflavík til New York skömmu eftir áramót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×