Enski boltinn

Boltastrákurinn með yfir 100 þúsund fylgjendur á twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Hinn 17 ára gamli Charlie Morgan er frægasti boltastrákur í heimi og gott merki um það eru vinsældir hans á twitter. Morgan er nú kominn með yfir hundrað þúsund fylgjendur.

Eden Hazard leikmaður Chelsea fékk rautt spjald í undanúrslitaleik Chelsea og Swansea fyrir að sparka í Morgan þegar strákurinn reyndi að tefja leikinn með því að leggjast á boltann. Charlie Morgan er nú búinn að senda frá sér sitt fyrsta tíst eftir atvikið.

"Geðveikir 24 tímar. Ég er búinn að tala við Hazard og ætla ekki að kæra hann. verum í bandi," skrifaði Charlie Morgan inn á twitter-síðu sína.

Charlie Morgan verður 18 ára gamall á þessu ári og var að hlaupa í skarðið á þessum leik en boltastrákarnir eru flestir yngri. Það hefur líka komið í ljós að Morgan er vel tengdur innan Swansea.

Pabbi hans er hóteleigandinn Martin Morgan sem rekur yfir ellefu hótel og situr ennfremur í stjórn Swansea. Vinir hans Charlie Morgan töluðu um það við blaðamenn að hann væri líklega ríkasti boltastrákur í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×