Handbolti

Ragnar og Róbert fóru í reynslu hjá Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingurinn Ragnar Jóhannsson og Framarinn Róbert Aron Hostert nýttu HM-hléið til þess að skella sér á reynslu hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad en með því spilar einmitt landsliðsmaðurinn Ólafur Guðmundsson.

Ragnar og Róbert eru þó ekkert á leiðinni frá sínum félögum á þessu tímabili samkvæmt heimildum Vísis en svo gæti farið að þeir færu til Svíþjóðar fyrir næsta tímabil.

IFK Kristianstad er eins og er í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 29 stig og aðeins einu stigi á eftir toppliði Lugi HF.

Ragnar Jóhannsson er 22 ára hægri skytta sem hefur skorað 62 mörk í 12 leikjum með FH í N1 deild karla í vetur. Róbert Aron Hostert er 21 árs vinstri skytta sem hefur skorað 49 mörk í 10 leikjum með Fram í N1 deild karla í vetur.

Ragnar og Róbert voru báðir með 19 ára landsliðinu sem varð í öðru sæti á HM í Túnis 2009.

Í því liði voru einnig Aron Pálmarsson, Ólafur Guðmundsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Guðmundur Árni Ólafsson og Heimir Heimisson sem allir eru farnir að spila erlendis og þrír þeir fyrstnefndu voru ennfremur í A-landsliðinu sem tók þátt í HM á Spáni á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×