Enski boltinn

Charlie Morgan orðinn frægasti boltastrákur heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charlie Morgan er orðinn frægasti boltastrákur heims eftir atvik gærkvöldsins. Eden Hazard leikmaður Chelsea fékk þá rautt spjald fyrir að sparka í hann þegar Morgan reyndi að tefja leikinn með því að leggjast á boltann. Enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið í gærkvöldi og í morgun.

Charlie Morgan ætlaði greinilega að gera sitt til að hjálpa Swansea að komast í úrslitaleik enska deildarbikarsins en hann skrifaði um markmið sitt fyrir leikinn inn á twitter-síðu sinni.

„Síðasti leikurinn hjá kóngi allra boltastráka #þörfáþví #tefja," skrifaði Morgan á Twitter síðu sína fyrir leikinn í gærkvöldi en þar skrifaði hann einnig um það að hann væri spilandi stjóri boltastráka þetta kvöld og ætlaði að spila sjálfum sér fyrir aftan mark heimaliðsins í hvorum hálfleik.

Charlie Morgan verður 18 ára gamall á þessu ári og var að hlaupa í skarðið á þessum leik en boltastrákarnir eru flestir yngri. Það hefur líka komið í ljós að Morgan er vel tengdur innan Swansea.

Faðir hans er nefnilega David Morgan sem er starfandi aðstoðar stjórnarmaður hjá félaginu. Charlie Morgan ætlar ekki að kæra Eden Hazard fyrir þessa "árás".

Charlie Morgan er að upplifa sínar fimmtán mínútur af frægð því hann er nú kominn með yfir 81 þúsund fylgjendur á twitter eftir atvik gærkvöldsins. Það er hægt að sjá atvikið með því að smella hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×