Handbolti

Hörður Fannar með slitið krossband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Hörður Fannar Sigþórsson spilar ekki meira með liði Akureyrar í N1-deild karla í vetur. Þessi sterki línumaður sleit krossband í hné eftir að hafa náð að spila aðeins átta mínútur með liðinu þetta tímabilið.

Þetta kom fram á vef Akureyrar í dag. Hörður fór meiddur af velli í leik gegn Haukum á mánudagskvöld en hann var þá nýkominn aftur til félagsins frá Kyndli í Færeyjum.

Bjarni Fritzson, annar þjálfara Akureyrar, sagði reyndar við Vísi á þriðjudag að Hörður væri ekki með slitið krossband en að það væri skemmd í því. Nú hefur annað komið á daginn en þess má geta að fyrr í vetur sleit hornamaðurinn Oddur Gretarsson krossband í hné í leik með Akureyri - einnig gegn Haukum.

Hörður Fannar fer í aðgerð í næsta mánuði og miðað við hefðbundnar batahorfur eru líkur á að hann muni einnig missa af upphafi næsta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×