Handbolti

Hörður Fannar úr leik í vetur?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Fannar Sigþórsson.
Hörður Fannar Sigþórsson. Mynd/Stefán
Karlalið Akureyrar í N1 deildinni í handbolta varð fyrir enn einu áfallinu í fyrsta leik eftir HM-frí þegar Hörður Fannar Sigþórsson meiddist á hné í tapleik á móti Haukum í gærkvöldi. Hann er ekki með slitið krossband en mun líklega missa af restinni á tímabilinu.

Bjarni Fritzson, annar þjálfari Akureyrar, gat ekki spilað á móti Haukum vegna meiðsla og hinn þjálfarinn Heimir Örn Árnason er að spila þrátt fyrir að vera ekki heill heilsu. Fyrr í vetur sleit hornamaðurinn Oddur Grétarsson síðan krossband.

„Þetta er smá sjokk en svona er boltinn," sagði Heimir Örn Árnason þegar Vísir náði í hann í kvöld. Hann var þá að fylgjast með annars flokks leik væntanlega að leita að manni til að fylla skarið.

„Hörður Fannar er ekki með slitið krossband en þetta lítur ekki alltof vel út. Þetta verða einhverjar vikur eða mánuðir. Það er mjög líklegt að tímabilið sé farið hjá honum. Það var einhver skemmd í krossbandinu en það var ekki slitið," sagði Heimir sem viðurkennir að menn fyrir norðan séu búnir að fá nóg af slíkum áföllum.

„Þetta fer að verða ágætt. Oddur sleit og við þjálfararnir erum báðir búnir að vera hálf laskaðir eins og aumingjar," sagði Heimir Örn.

„Ég veit ekki hver er staðan á Bjarna núna en hann er allur að koma til. Hann ætti að geta komið inn fljótlega," sagði Heimir.

Hörður Fannar Sigþórsson var nýkominn aftur heima til Akureyrar eftir dvöl hjá Kyndil í Færeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×