Innlent

Enn einn Íslendingurinn handtekinn vegna fíkniefnamáls í Danmörku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Danskur lögreglumaður við störf. Mynd/ facebooksíða dönsku lögreglunnar.
Danskur lögreglumaður við störf. Mynd/ facebooksíða dönsku lögreglunnar.

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók í gær Íslending sem er grunaður um smygl á fimm og hálfu kílói af amfetamíni. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í dag. Þetta staðfestir Steffen Thaaning Steffensen hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, í samtali við Vísi. Hann segir að nú séu alls ellefu Íslendingar í varðhaldi, bara í Kaupmannahöfn, vegna rannsóknar á fíkniefnamálum sem tengjast Íslendingum.

Tvö málanna eru gríðarlega stór á íslenskan mælikvarða. Annars vegar er um að ræða mál þar sem grunur leikur á að 34 kílóum hafi verið smyglað til Danmerkur frá Hollandi. Eins og greint hefur verið frá er höfuðpaur þess máls Guðmundur Ingi Þóroddsson. Ekstrabladet greindi svo frá því í síðustu viku að tveir Íslendingar, sem þegar afplánuðu dóm í dönsku fangelsi vegna fíkniefnamáls, hefðu verið settir í gæsluvarðhald vegna smygls á 27 kílóum af amfetamíni. Þessi tvo fyrrgreindu mál tengjast.

Þá var einn Íslendingur handtekinn í Kaupmannahöfn í gær til viðbótar í gær vegna meints smyglmáls. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að annar Íslendingur hafi verið handtekinn fyrir nokkrum dögum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×