Innlent

Þekkir þú hrossakjöt frá nautakjöti?

Tilgangur áskorunarinnar er að leyfa fólki að meta hvort það finni mun á hrossakjöti og nautakjöti.
Tilgangur áskorunarinnar er að leyfa fólki að meta hvort það finni mun á hrossakjöti og nautakjöti. Samsett mynd.
Háskóladagurinn 2013 fer fram á morgun og verður mikið um að vera í tilefni þess.

Í Háskóla Íslands (HÍ) munu nemendur, kennarar og starfsmenn Matís bjóða upp á svokallaða „kjötáskorun" á Háskólatorginu, og fer hún fram milli klukkan 13 og 14:30.

Er tilgangur áskorunarinnar sagður sá að leyfa Íslendingum að meta hvort þeir finni mun á milli hrossakjöts annars vegar og nautakjöts hins vegar.

Steinar B. Aðalbjörnsson markaðsstjóri Matís telur að Íslendingar muni eiga erfitt með að þekkja tegundirnar í sundur. „Já ég held það. Ég byggi það reyndar bara á minni eigin reynslu en ekki að vitna í neitt sem Matís hefur gert. Ef hrossakjöt og nautakjöt er rétt framreitt er þetta lúmskt erfitt."

Vill Steinar þó taka það fram að áskorunin sé alls ekki til þess að gera lítið úr vörusvikum þeim sem hafa komist upp í Evrópu nýverið, þar sem hrossakjöt er selt en sagt vera nautakjöt.

„En ef maður spáir bara í vöruna sem slíka, hrossakjötið, þá er það ekkert síðra kjöt en nautið."

Steinar segir uppákomuna einnig eiga að vekja athygli á störfum matvælafræðinga um allan heim, og þeim verkefnum sem þeir starfa að.

„Gæti verið, og nú spyr ég bara eins og sá sem ekki veit, að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir svona klúður erlendis ef það hefðu verið fleiri matvælafræðingar að störfum?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×