Fótbolti

Stórt tap í fyrri leiknum hjá Söru og Þóru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir.
Þóra Björg Helgadóttir. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir og félagar þeirra í sænska liðinu LdB Malmö urðu að sætta sig við 5-0 tap í kvöld á móti franska liðinu Olympique Lyon í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

LdB Malmö er vissulega á heimavelli í seinni leiknum en á ekki mikla möguleika á móti Lyon sem hefur unnið Meistaradeildina tvö síðustu ár.

Þóra Björg Helgadóttir stóð í marki LdB Malmö og hafði nóg að gera og Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn á miðju liðsins.

Sænski framherjinn Lotta Schelin fór illa með lið LdB Malmö í kvöld því hún skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Hin mörkin skoruðu frönsku stelpurnar Camille Abily, Élodie Thomis og Louisa Nécib.

Lyon var 2-0 yfir í hálfleik en LdB Malmö átti ágætan sprett í upphafi seinni hálfeiks. Það skilaði ekki marki og Lyon gerði síðan út um leikinn með tveimur mörkum með níu mínútna millibili. Síðasta markið kom mínútu fyrir leikslok og gerði endanlega út um möguleika sænska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×