Fótbolti

Bjarni: Ég er ekki týpan hans Viggó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bjarni Þór Viðarsson segir í samtali við danska fjölmiðla að það sé erfitt að sætta sig við að vera utan hóps hjá danska liðinu Silkeborg.

Bjarni gekk til liðs við Silkeborg síðastliðið sumar og skrifaði þá undir fjögurra ára samning. Hann hafði áður verið á mála hjá Everton, Twente og Mechelen.

Hann var í liðinu þegar að Keld Bordinggaard var við stjórnvölinn en Bjarni hefur svo verið í kuldanum eftir að Viggo Jensen tók við.

„Ég veit ekki hvað gerðist. Ég var í hópnum í fyrstu þremur leikjunum hans en síðan þá hef ég verið algjörlega fyrir utan hópinn. Ég hef verið 100 prósent heill heilsu í tvo mánuði eftir að hafa lent í smávægilegum meiðslum á undirbúningstímabilinu í vetur.“

„Það er því ekki neinum meiðslum að kenna að ég sé ekki að spila. Ég hef rætt við Viggo nokkrum sinnum og líklega er ég ekki sú týpa af leikmanni sem hann vill nota. Ég hef ekki verið í hópnum núna í vor og finnst að ég sé í raun óralangt frá því.“

„Ég átti að vera mikilvægur leikmaður þegar ég var fenginn til liðsins af Keld Bordinggaard. Við skulum því sjá til hvað gerist í sumar en það er alveg ljóst að ég hef ekki áhuga á því að sitja í stúkunni á næsta tímabili.“

„En ég á þrjú ár eftir af samningnum mínum og því er þetta ekki undir mér komið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×