Haukar taka á móti Fram í dag í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla í handbolta. Fram getur þarna unnið þriðja leikinn í röð í einvíginu og tryggt sér þar með Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn fer fram á Ásvöllum, hefst klukkan 15.00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.
Vinni Fram í dag þá yrði það annað árið í röð sem úrslitaeinvígið vinnst 3-0 og Haukamenn fengju þá jafnframt að kynnast því sem nágrannar þeirra í FH upplifðu í fyrra sem er að vinna ekki leik í úrslitaeinvíginu þrátt fyrir að vera með heimavallarrétt.
Aðeins tveimur öðrum félögum hefur verið sópað út úr lokaúrslitunum en Haukar unnu 3-0 sigur á Val og ÍBV árin 2004 og 2005. Valur og ÍBV voru hinsvegar ekki með heimavallarrétt í þessum einvígum.
Fjórum liðum hefur tekist að minnka muninn í 2-1 eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvígi úrslitakeppni karla en aðeins einu þeirra (KA 2002) tókst að vinna þrjá leiki í röð og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. KA lenti þá 2-0 undir á móti Val en vann þrjá síðustu leikina, þar af tvo þeirra á heimavelli Vals. Öll hin þrjú liðin unnu leik þrjú en töpuðu síðan einvíginu í næsta leik á eftir.
Sóp í lokaúrslitum í karlahandboltanum:
2012: FH-HK 0-3 (23-26, 26-29, 26-28)
2005: Haukar-ÍBV 3-0 (31-30, 39-35, 28-24)
2004: Haukar-Valur (33-28, 29-23, 33-31)
Lið sem hafa lent 2-0 undir í lokaúrslitum í karlahandboltanum:
1996: KA* á móti Val - tapaði 1-3
1998: Fram* á móti Val - tapaði 1-3
2002: KA á móti Val - vann 3-2
2004: Valur á móti Haukum - tapaði 0-3
2005: ÍBV á móti Haukum - tapaði 0-3
2011: Akureyri* á móti FH - tapaði 1-3
2012: FH* á móti HK - tapaði 0-3
* Var með heimavallarrétt
