Fótbolti

Þrjú íslensk mörk í flottum sigri Avaldsnes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði tvö mörk og Mist Edvardsdóttir skoraði eitt þegar Avaldsnes vann 3-0 heimasigur á Klepp í norsku kvennadeildinni í kvöld. Þetta var annar sigur Avaldsnes í tímabilinu en liðið er nýliði í deildinni.

Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Avaldsnes og hélt marki sínu hreinu í annað skiptið í sumar en auk Hólmfríðar og Mistar þá var Þórunn Helga Jónsdóttir einnig í byrjunarliðinu. Hólmfríður var tekin útaf á 83. mínútu en hinar spiluðu allan leikinn.

Mist Edvardsdóttir skoraði fyrsta markið á 12. mínútu eftir aukaspyrnu og Hólmfríður bætti síðan við tveimur mörkum fyrir hlé. Fyrra markið skoraði Hólmfríður á 30. mínútu eftir stungusendingu inn fyrir vörnina en það seinna kom á 43. mínútu eftir hornspyrnu.

Avaldsnes er í 7. sæti deildarinnar með 7 stig en lið Klepp er í botnsæti deildarinnar með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×