Innlent

Efnahagsstefna Íslendinga bjargaði mannslífum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í Guardian er fjallað um það að rétt hafi verið af Íslendingum að verja almannatryggingakerfið.
Í Guardian er fjallað um það að rétt hafi verið af Íslendingum að verja almannatryggingakerfið. Mynd/ vilhelm.

Sú efnahagsstefna sem rekin var á Íslandi eftir bankahrun kann að hafa bjargað mannslífum, eftir því sem fram kemur í grein sem birtist á vef Guardian í gær. Þar er fjallað um ólík viðbrögð vestrænna ríkja við efnahagskreppunni sem skall á árin 2007 og 2008.

Í greininni er vísað í rannsókn tveggja sérfræðinga, annars vegar læknis og hins vegar lýðheilsufræðings, sem fullyrða að niðurskurður eftir efnahagssamdráttinn hafi gríðarlega slæm áhrif á velferð almennings í Evrópu og Norður Ameríku. Verst sé ástandið í Grikklandi en þar hafi sjálfmorðum fjölgað um 60%. Málum sé öðruvísi háttað á Íslandi og í Finnlandi þar sem reynt hafi verið að verja velferðarkerfið.

„Í Finnlandi, Íslandi og ríkjum sem gripu til aðgerða til þess að verja hag borgaranna á erfiðum tímum sáust engin breyting á sjálfsmorðstíðni né heldur aukning annarra heilbrigðisvandamála," segja sérfræðingarnir orðrétt.

Í greininni segir að aðgengi Íslendinga að heilbrigðisþjónustu hafi haldist óskert þrátt fyrir kreppuna. Hvorki hafi orðið vart við aukna sjálfsmorðstíðni né þunglyndi. Fólk borði meiri fisk og neysla þeirra því batnað. Íslendingar hafi verið ein hamingjusamasta þjóð í heimi árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×