Sport

Fimm gullverðlaun og þrjú mótsmet

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anton Sveinn á palli í Lúxemborg.
Anton Sveinn á palli í Lúxemborg. Mynd/Sundsamband Íslands

Íslenska sundfólkið gerði það gott á öðrum degi Smáþjóðaleikanna í Lúxemborg í dag. Alls unnust tólf verðlaun og þrjú mótsmet voru sett.

Í 100 metra baksundi sigraði Eygló Ósk Gústavsdóttir á nýju mótsmeti, 1:02,89 mínútum.  Ingibjörg Kristín Jónsdóttir lenti í öðru sæti á tímanum 1:04,47.

Anton Sveinn McKee sigraði í 400 metra skriðsundi á tímanum 3:59,25 mínútum. Arnór Stefánsson synti á tímanum 4:09,57 og endaði í fjórða sæti. Anton Sveinn vann einnig sigur í 200 metra bringusundi á tímanum 2:16,97 mínútum. Hrafn Traustason hafnaði í öðru sæti á 2:19,56.

Í 200 bringusundi sigraði Hrafnhildur Lúthersdóttir á tímanum 2:31,28 og bætti eigið mótsmet sem var 2:32,29. Karen sif Vilhjálmsdóttir endaði í sjötta sætinu á 2:46,56.

Hrafnhildur og Eygló á palli í Lúxemborg.Mynd/Sundsamband Íslands

Í 4x200m skrið boðsundi sigraði íslenska kvennasveitin á tímanum 8:25,24 og stórbætti mótsmetið, 8:33,25, sem var í eigu Íslendinga líka. Sveitina skipuðu þær Eygló Ósk, Inga Elín, Hrafnhildur og Jóhanna Gerða.

Strákarnir syntu á 7:39,15 sem skilaði öðru sæti. Sveitina skipuðu Davíð Hildiberg, Aron Örn Stefánsson, Daníel Hannes Pálsson og Anton Sveinn.

Davíð Hildiberg lenti einnig í öðru sæti í 100 metra baksundi á tímanum 57,91 og Kolbeinn Hrafnkelsson synti sig í fjórða sætið með tímanum 59,33 sekúndum.

Íslendingar hafa verið sigursælir í Lúxemborg.Mynd/Sundsamband Íslands

Í 400 metra skriðsundi synti Inga Elín Cryer á tímanum 4:24,73 og endaði í þriðja sæti. Rebekka Jaferian synti á 4:38,16 og endaði í fimmta sæti.

Í 100 metra flugsundi náði Jóhanna Gerða Gústafsdóttir þriðja sæti á tímanum 1:02,92 en Ingibjörg Kristín kom þar næst á eftir í fjórða sæti á tímanum 1:03,83.

Daníel Hannes náði þriðja sætinu í 100 metra flugsundi á tímanum 57,14 og Kristinn synti á tímanum 58,24 sem dugði honum í sjötta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×