Fótbolti

Spilar hundraðasta landsleikinn á afmælisdaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vignir Þröstur Hlöðversson.
Vignir Þröstur Hlöðversson. Mynd/Stefán

Vignir Þröstur Hlöðversson, blakmaður úr Stjörnunni, valdi heldur betur daginn til þess að spila sinn hundraðasta landsleik. Vignir spilaðar hundraðasta landsleikinn á 46 ára afmælisdaginn sinn.

Vignir er fyrirliði íslenska landsliðsins í undankeppni HM í Svíþjóð og hann hefur flesta landsleiki skráða eftir leik gærkvöldsins, 99 talsins. Ísland tapaði 3-0 (25-16,25-18,25-15) fyrir Svíum í fyrsta leik í HM karla í gær. Róbert Hlöðversson, bróðir Vignis, var valinn besti leikmaður íslenska liðsins.

Vignir spilar hundraðasta landsleikinn á móti Grikklandi í dag en Ísland hefur aldrei leikið landsleik gegn Grikklandi. Tvö efstu sætin í riðlunum gefa rétt á áframhaldandi þátttöku í mótinu en Noregur er fjórða liðið í riðlinum. Karlaliðið komst síðast áfram 2010.

Að móti loknu í Svíþjóð heldur liðið áfram för sinni á Smáþjóðaleikana í Lúxemborg þar sem liðið mætir heimamönnum, Kýpur, San Marínó og Mónakó. Það eiga því nokkrir landsleikir eftir að bætast í hópinn hjá Vigni.

Í leik Íslands og Litháen í gær í undankeppni HM kvenna spilaði Elsa Sæný Valgeirsdóttir sinn 50. landsleik.  Sævar Már Guðmundsson, fararstjóri íslenska hópsins í Lettlandi afhenti Elsu Sæný silfurmerki BLÍ við þetta tilefni á liðsfundi í hádeginu í dag en liðið leikur svo gegn Eistlandi seinni partinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×