Erlent

Maður grunaður um aðild að sprengjuárásunum í Boston skotinn til bana af lögreglu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Samsett mynd/AP

Bandaríska alríkislögreglan skaut mann til bana í Orlando í morgun sem grunaður er um aðild að sprengjuárásunum í Boston í síðasta mánuði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu NBC var maðurinn, hinn 27 ára gamli Ibragim Todashev, skotinn við heimili sitt þegar hann réðist á lögreglumann. Talsmaður alríkislögreglunnar staðfesti að maðurinn væri látinn.

Lögreglumenn voru við heimili Dodashev í þeim tilgangi að yfirheyra hann vegna gruns um aðild að sprengjuárásunum, en þrír týndu lífi og yfir 250 manns særðust þegar heimatilbúnar sprengjur úr þrýstipottum sprungu nálægt marklínunni í Boston-maraþoninu.

Áður hafði lögregla fellt Tamerlan Tsarnaev í skotárás, en hann var talinn standa á bak við árásirnar ásamt bróður sínum Dzhokhar, sem bíður réttarhalda. Todashev er sagður hafa þekkt bræðurna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×