Menning

Einvalalið í óperu Gunna Þórðar

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Þóra Einarsdóttir, Viðar Gunnarsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Alina Dubik, Bergþór Pálsson og Jóhann Smári Sævarsson eru meðal einsöngvara í óperunni um Ragnheiði biskupsdóttur.
Þóra Einarsdóttir, Viðar Gunnarsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Alina Dubik, Bergþór Pálsson og Jóhann Smári Sævarsson eru meðal einsöngvara í óperunni um Ragnheiði biskupsdóttur.

Petri Sakari stjórnar óperunni „Ragnheiður“, eftir Gunnar Þórðarson tónskáld og Friðrik Erlingsson rithöfund, sem verður frumflutt í konsertformi í Skálholtskirkju á þrennum tónleikum í ágúst.

Óperan byggir á ástar- og örlagasögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Skálholti, forboðið ástarsamband hennar við Daða Halldórsson og deilur hennar við föður sinn, Brynjólf biskup Sveinsson. Að sögn Gunnars er óperan síðrómantískt verk, melódískt og við alþýðuskap, en hún tekur um tvær og hálfa klukkustund í flutningi.

Einvalalið einsöngvara kemur fram í verkinu: Þóra Einarsdóttir, Viðar Gunnarsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Alina Dubik, Bergþór Pálsson, Guðrún Ólafsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Jóhann Kristinsson og Björn Ingiberg Jónsson.  Ásamt þeim flytja verkið Kammerkór Suðurlands og 50 manna sinfóníuhljómsveit.

Óperan „Ragnheiður“ er án efa eitt metnaðarfyllsta verk sem Gunnar Þórðarson hefur tekist á við á sínum ferli. Þeir Friðrik Erlingsson hafa unnið að óperunni í um fjögur ár.  „Ragnheiður var uppi á sautjándu öld, á sama tíma og óperan var að verða til og mótast. Þetta er sígild saga sem inniheldur mikla dramatík, tilfinningar og átök. Verkið er samið með það í huga að koma þessari ástarsögu á framfæri í nýju formi,“ sagði Friðrik í samtali við Fréttablaðið í nóvember síðastliðnum og bætti við að vonir stæðu til að verkið yrði flutt í Hörpu, með öllu tilheyrandi, áður en yfir lyki.

Petri Sakari er heimsþekktur hljómsveitarstjóri og Íslendingum vel kunnur fyrir störf sín með Sinfóníuhljómsveit Íslands árin 1988-1993 og aftur frá 1996-1998. Hann stjórnaði  Kammersveit Reykjavíkur á Listahátíð í Reykjavík og stjórnar Sinfóníunni í Wagner-veislu í Hörpu  nú í júní. Miðasala á Ragnheiði hefst innan tíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.