Erlent

Munir úr eigu Moniku Lewinsky á uppboði

Heimir Már Pétursson skrifar
Lewinsky er þekktust fyrir það að hafa kynnst Bill Clinton vel á sínum tíma.
Lewinsky er þekktust fyrir það að hafa kynnst Bill Clinton vel á sínum tíma.
Ýmsir munir úr eigu Moniku Lewinsky sem átti í ástarsambandi við Bill Clinton fyrrverandi forseta Bandaríkjanna þegar hún var lærlingur í Hvíta húsinu, eru boðnir til sölu á uppboði á Netinu.

Meðal muna sem boðnir verða upp eru svartur náttkjóll og bréf undirritað af Clinton til Lewinsky. Alls 32 munir eru í boði. Munirnir koma frá öðrum elskhuga hennar að nafni Andy Bleiler en hann útvegaði Kenneth Starr sérstökum saksóknara í ákæru gegn Clinton árið 1998 munina á sínum tíma. Bleiler var kennari Lewinsky í háskóla og var giftur þegar hann átti í fimm ára sambandi við hana.

Á uppboðinu á Netinu má auk náttkjólsins og bréfsins frá Clinton finna þrjá krumpaða pakka af M&M merkta með innsigli forsetans, handskrifuð skilaboð af Lewinsky og nokkra fataleppa. Blár kjóll sem innihélt sæðisbletti frá Clinton og varð eitt aðal sönnunargagnið gegn honum sem leiddi til þess að bandaríska þingið áminnti hann, er þó ekki meðal þeirra muna sem seldir verða á uppboðinu. Búist er við að á bilinu þrjár til sex milljónir íslenskra króna fáist fyrir munina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×