Erlent

Skjölunum um bin Laden forðað

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bandaríkjaforseti ásamt William H. McRaven, sem stjórnaði aðgerðum þegar bin Laden var drepinn vorið 2011.
Bandaríkjaforseti ásamt William H. McRaven, sem stjórnaði aðgerðum þegar bin Laden var drepinn vorið 2011. Mynd/AP
Bandarísk stjórnvöld hafa látið hreinsa öll skjöl um árásina á heimili Osama bin Ladens í Pakistan vorið 2011 úr tölvum varnarmálaráðuneytisins í Pentagon. Þess í stað hafa þau verið flutt í höfuðstöðvar leyniþjónustunnar CIA, þar sem auðveldara er að tryggja að þau verði aldrei gerð opinber.

Þetta kemur fram í skýrslu endurskoðunarmanna, sem voru að athuga hvort stjórn Baracks Obama hafi veitt kvikmyndagerðarmönnum, sem voru að gera bíómynd „Zero Dark Thirty” um þennan leiðangur, óvenju mikinn aðgang að heimildarmönnum.

Preston Golson, talsmaður CIA, segir ekkert hæft í því að skjölin hafi verið flutt í þeim tilgangi að komast fram hjá ákvæðum upplýsingalaga.

Varnarmálaráðuneytið gat hins vegar, eftir að skjölin voru farin þaðan, svarað formlegum fyrirspurnum frá AP fréttastofunni þannig, að ekkert fyndist í fórum ráðuneytisins um leiðangur sérsveitarmanna hersins, sem drápu hryðjuverkaleiðtogann.

Fréttastofan sendi fjölda fyrirspurna til ráðuneytisins fljótlega eftir árásina, en óljóst er nákvæmlega hvenær þau voru flutt þaðan.

Golson segir skjölin eiga heima hjá CIA, þar sem árásinni var stjórnað af mönnum frá CIA þótt sérsveitarmenn hersins hafi framkvæmt hana.

Varnarmálaráðuneytið getur neitað að láta af hendi skjöl, og borið fyrir sig öryggisatriðum, en leita má til dómstóla til að fá slíkri neitun hnekkt. Leyniþjónustan CIA hefur hins vegar heimildir til að halda eftir skjölum, og ekki er hægt að fara með ákvarðanir um slíkt til úrskurðar hjá dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×