Innlent

"Fólk er að pakka saman hérna á Blautasandi"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Þráinn og félagar gáfust upp á "Blautasandi"
Þráinn og félagar gáfust upp á "Blautasandi" INSTAGRAM/thrainnko
„Gætum ekki verið blautari þótt við reyndum," segir Þráinn Kolbeinsson, bardagakappi, á Instagram síðu sinni. Þráinn er ásamt hópi vina staddur á Rauðasandi þar sem tónlistarhátíðin Rauðasandur Festival fer fram um helgina. Veðrið á svæðinu hefur verið afleitt og tjöld hafa fokið og brotnað á svæðinu.

„Ég er rétt ókominn á Patreksfjörð núna," segir Þráinn í samtali við fréttastofu.

Hann segir hópinn vera búinn að pakka saman og förinni heitið á Patreksfjörð. „Ég held að það séu allir á leiðinni á Patreksfjörð núna eða heim. Þetta er mikið óveður, tjöld eru búin að vera að fjúka og brotna. Það eru held ég allir að pakka saman. Þegar við fórum var annar helmingurinn farinn og hinn helmingurinn að pakka saman."

„Ég var orðinn blautur inn að beini," bætir hann svo við.

Lögregla og björgunarsveitir eru komnar á svæðið til að aðstoða fólk við að pakka saman föggum sínum.

Hörður Sveinsson ljósmyndari er einnig á hátíðinni en hann segir gesti enn bjartsýna, enda séu hátíðargestir að færa sig inn á Patreksfjörð til að halda áfram að skemmta sér.

„Við fáum gistingu í grunnskólanum á Patreksfirði og einhverjir ætla að spila í Sjóræningjahúsinu hérna á Patreksfirði hérna í kvöld. Við tökum þessu bara mjög rólega og flestir eru bara mjög jákvæðir þrátt fyrir allt," segir Hörður.

Mikill veðurofsi hefur gengið yfir landið og til að mynda hafa tjöld UMFÍ á Selfossi fokið svo að kalla þurfti út björgunarsveitir.



Fólk fékk tilmæli um að pakka saman og aðstoð frá björgunarsveitum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×